Stærri en iðnbyltingin.

Við erum stödd í upphafi byltingar á mannlegu samfélagi sem er stærri og meiri en sú síðasta, iðnbyltingin.  Ólíkt því sem var þegar samfélagið var svolítið fyrirsjáanlegt og menn unnu jafnvel starfsævina á sama vinnustaðnum er samfélag nútímans síbreytilegt og menn munu vinna á 10 eða fleiri vinnustöðum um starfsævina.  Hvað hefur breyst?  Það varð töluverð breyting þegar einmenningstölvan kom fram en það varð bylting þegar hún varð nettengd.  Nettengd tölva og þráðlaus samskipti hafa margfaldað afkastagetu og hraða samfélagsins.  Félagsmótun og menning eru ekki lengur landfræðilega bundin.  Fram er komin ný heimsálfa, ósýnilega heimsálfan eins og Kenichi Ohmae kallaði hana.  Upplýsingar hafa verið iðnvæddar og framleiddar með stimplun um síðasta neysludag.  Áhrifin koma alls staðar fram í öllum þáttum samfélagsins.  Nú dugar ekki lengur að vera læs á texta heldur þarf að vera læs á miðilinn sjálfan.  Texti, tónlist, hreyfimyndir, kvikmyndir, litir og áferð.  Allt orkar þetta á neytandann sem sífellt verður fljótari í sjónrænni yfirferð sinni um netið.  Engin leið er að sjá hver þróunin verður, engin þorir að spá fyrir um hvernig samfélagið muni líta út eftir 5 ár, samt er skólakerfinu ætlað að undirbúa nemendur sínar undir það samfélag!

Líklegast er best að undirbúa þau undir morgundaginn með því að kenna þeim að lifa daginn í dag.  Það þarf vísast að hugsa menntakerfið upp á nýtt um leið og við viðurkennum að mannleg greind er meiri og dýpri en skólakerfi 19. aldar gerir ráð fyrir og við styðjumst enn við í dag.  Við þurfum að færa fólkinu aftur ímyndunaraflið sem skólakerfið hefur rænt af því í gegnum árhundruðin og sköpunargáfuna sem skólakerfið hefur kerfisbundið slökkt á með því að refsa nemendum fyrir að hafa rangt fyrir sér, spyrja kjánalegra spurninga og vafra andlega fyrir utan efnið.   Það þarf að byrja á grunnskólanum.

Einu sinni var engin almenningsmenntun framboðin, hvergi í heiminum.  Svo tóku menn ákvörðun og í dag er þetta víðast sjálfsagður hlutur.  Við reistum upp skólakerfi á sínum tíma sem sinnti þörfum þess samfélag sem skapaði það, samfélag iðnaðar og framleiðslu þar sem menntun þýddi trygg vinna og framtíðin var fyrirsjáanleg.  Við getum reyst skólakerfi sem sinnir þörfum þess samfélag sem byggir á sveigjanleika, samvinnu, fjölbreytileika, hraða, óefnislegri tilveru í stafrænum heimi og mikillar aðlögunarhæfni við úrvinnslu fjölbreyttra upplýsingastrauma. 

Þarf að hugsa almenningsmenntun upp á nýtt, tökum nýja ákvörðun sem þjónar samfélagi dagsins í stað þess að reyna að margsníða enn og aftur upp á okkur kerfi sem var hannað fyrir samfélag sem ekki er lengur til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband