Byltingin í tölvunni.


Fyrir daga nettengdrar tölvu, í gamla iðnaðarsamfélaginu, var þetta fyrirkomulag ágætt.  Barnaárgöngum var smalað á hverju hausti inn í skólakerfið þar sem börnin hrísluðust í gegn á 10 árum.  Markmiðið var aðallega tvennskonar, að tryggja einsleitni í samfélaginu og auka þar með stöðuleika innan þess og svo sortera út þau sem pössuðu inn í forsendur framhaldsskólanáms og loks háskólanáms.  Skólakerfið byggði á þeirri hugmyndafræði að menntun fælist í því að móta nemandann utan frá og að skólagöngu lokinni gekk hver og einn til starfs í samfélaginu og sinnti því til æviloka.  Svo kom að því að fyrsta einmenningstölvan fæddist, mjór var mikils vísir.

Með tilkomu tölvunnar varð fyrst til sá möguleiki að safna saman og vinna upplýsingar og selja í smásölu, þetta var upphafið að iðnvæðingu upplýsinganna.  Þótt takmarkanir hafi í upphafi verið á dreifingu upplýsinganna og vinnsla verið staðbundin í hverri tölvu fyrir sig myndaði þetta forsendur fyrir nýjan iðnað, upplýsingaiðnað.  Framleiðsla á upplýsingum og þá sérstaklega nýjum upplýsingum óx og þroskaðist.  Við nettengingu tölvunar varð síðan eðlisbreyting á notkun hennar og um leið á samfélaginu sem hýsti hana.  Aðgengi og sífellt aukið framboð varð á upplýsingum á öllum sviðum mannlífsins.   Fjölbreyttari aðilar tóku upp framleiðslu á upplýsingum og gæði þeirra voru á öllum stigum, tíðni nýrra og endurbættra upplýsinga margfaldaðist.  Segja má að í dag séu upplýsingar framleiddar með notendadagsstimpli.

Tölvueign varð landlæg í flestum ríkjum hins vestræna heims, framboð á alls konar upplýsingum var að breytast og tölvur tengdust hvor annarri um nettengingu og það net hefur síðan þá þanist út og tekið á sig sjálfbæra tilveru sem virðir hvorki lönd né strönd.  Til varð nýr stafrænn vettvangur fyrir útbreiðslu hugmynda og upplýsinga sem varð þess valdandi að hópamyndun losnaði undan landfræðilegum hindrunum með þeim afleiðingum að samfélagslegt vald yfir einstaklingnum minnkaði.  Samtímis jókst straumur upplýsinga og aðgengi einstaklingins að þeim og þær veittu honum nýjar og aðrar forsendur til að grundvalla ákvarðanir sínar á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband