Spurning Sir. Ken Robinsons.
Þriðjudagur, 28. apríl 2009
Sir. Ken Robinson hefur lagt fram og rætt spurninguna, hvort skólar drepi sköpunargáfu nemenda sinna. Sjálfur hef ég grun um, en alls enga vissu, að grunnskólinn drepi sköpunargáfu nemenda sinna með fyrirséðum erfiðleikum fyrir þá í framtíðinni og valdi samfélagslegum skaða sem varla er hægt að meta til fjár. En ég hef von um að finna dæmi um annað. Í sköpunargáfunni er falinn hæfileikinn til að upphugsa frumlegar lausnir á hversdagslegum vandamálum, að tengja saman óskilda þætti í skiljanlega niðurstöðu. Ég tel að innbyggðir kerfislægir þættir loki á sköpunargáfu/Creativity nemandans.
Frumleg hugmynd sem hefur gildi er afurð hugmynda sem ekki voru svo frumlegar eða voru það en höfðu ekki gildi fyrir hugsuðinn eða samhengið sem henni var ætlað að vera í. Frumleg hugmynd verður ekki til nema í umhverfi þar sem ófullkomin og jafnvel röng hugsun er velkomin. Að hafa rétt til að hafa rangt fyrir sér. Þetta er grundvallaratriði. Í umhverfi þar sem refsað er fyrir að hafa rangt fyrir sér venur viðkomandi af því að taka til máls, tjá hug sinn. Þögnin, að taka ekki til máls verður sjálfgild staða nemandans. Við þetta bætist kennsluaðferð sem í grunninn er brúkuð í grunnskólum landsins, kennd við pedagogy, sem á uppruna sinn í kaþólskum klausturskólum frá miðöldum þar sem nemendur kirkjunnar tóku á móti guðsorði á forræði kennara sinna, ítroðsla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.