Færsluflokkur: Bloggar

Spurning Sir. Ken Robinsons.


Sir. Ken Robinson hefur lagt fram og rætt spurninguna, hvort skólar drepi sköpunargáfu nemenda sinna.  Sjálfur  hef ég grun um, en alls enga vissu, að grunnskólinn drepi sköpunargáfu nemenda sinna með fyrirséðum erfiðleikum fyrir þá í framtíðinni og valdi samfélagslegum skaða sem varla er hægt að meta til fjár.  En ég hef von um að finna dæmi um annað.  Í sköpunargáfunni er falinn hæfileikinn til að upphugsa frumlegar lausnir á hversdagslegum vandamálum, að tengja saman óskilda þætti í skiljanlega niðurstöðu.  Ég tel að innbyggðir kerfislægir þættir loki á sköpunargáfu/Creativity nemandans.

Frumleg hugmynd sem hefur gildi er afurð hugmynda sem ekki voru svo frumlegar eða voru það en höfðu ekki gildi fyrir hugsuðinn eða samhengið sem henni var ætlað að vera í.  Frumleg hugmynd verður ekki til nema í umhverfi þar sem ófullkomin og jafnvel röng hugsun er velkomin.  Að hafa rétt til að hafa rangt fyrir sér.  Þetta er grundvallaratriði.  Í umhverfi þar sem refsað er fyrir að hafa rangt fyrir sér venur viðkomandi af því að taka til máls, tjá hug sinn.  Þögnin, að taka ekki til máls verður sjálfgild staða nemandans.  Við þetta bætist kennsluaðferð sem í grunninn er brúkuð í grunnskólum landsins, kennd við pedagogy,  sem á uppruna sinn í kaþólskum klausturskólum frá miðöldum þar sem nemendur kirkjunnar tóku á móti guðsorði á forræði kennara sinna, ítroðsla.


Ímyndunaraflið.


Ímyndunaraflið er ein dýrmætasta eign mannsins sem skólarnir eru best til fallnir að virðisauka.  Það ætti að vera höfuðskylda hvers skólasamfélags.  Ímyndunaraflið er undirstaða sköpunargáfunnar sem býr í okkur öllum.  Það er í sköpunargáfunni (creativity) sem virðisauki samfélagsins er falinn.  Og það er mikill misskilningur að það séu einungis útvaldir sem hafi sköpunargáfu alveg eins og það er misskilningur að allir geti ekki lært.  Það er okkur eðlislægt að læra og það er okkur eðlislægt að ímynda okkur og fá frumlegar hugmyndir sem hafa gildi fyrir einstaklinginn og samfélagið sem hann býr í. 

 

Leiðin að sköpunargáfunni (creativity) er m.a. falin í leyfinu til að hafa rangt fyrir sér.  Er m.a. falin í því að hugsa óhefðbundið.  Er m.a. falin í því að tjá sig frjálst.  Leiðin er falin í listunum, í gegnum ritlistina, myndlistina, ljóðlistina, leiklistina, tónlistina, hreyfilistina, dansinn, skúlptúrinn, kvikmyndina, ljósmyndina og þannig má lengi telja.  Þegar ég sat menntaþing í Íþróttahöllinni á Akureyri s.l. haust og sá Arnór Guðmundsson frá Menntamálaráðuneytinu kynna í glærusýningu nýtt fyrirkomulag í menntamálum íslendinga áttaði ég mig á því að skólayfirvöld voru á rangri leið. Listir voru ekki þáttaðar inn í skólastarfið heldur voru þær dregnar upp í lok kynningarinnar sem n.k. viðhengi, ef menn vilja, og birtast sem sérstakar stofnanir út í bæ.  Ég áttaði mig á að hin nýja sýn fólst í því að hræra í grautnum.  Jafnvel þótt skólarnir fengu aukið vægi í gerð námsskráa kæmi miðstýrt ritstjórnarvald líklega í veg fyrir frumlega hugsun í gerð námskráa.  Ég álykta þetta út frá því hvernig nýju lögin voru kynnt.  Það er mín skoðun að menntakerfi sem útskrifar nemendur sem hafa þann eina hæfileika að geta lýst því sem fyrir augum ber en hafa ekki þroskaðan hæfileika til að túlka það sem fyrir augum ber hefur brugðist skyldu sinni gagnvart skjólstæðingi sínum og samfélaginu. 

Það að útskrifa nemendur sem hafa bara burði til að lýsa veröldinni en geta ekki túlka hana er tap samfélagsins.


(það vantar góða íslensku þýðingu en creativity skilgreinist: að fá frumlega hugmynd sem hefur gildi -svo ég noti skilgreiningu Sir. Ken Robinsons).  


Skapandi nemendur?


Í erindi sem fræðimaðurinn Tony Buzan hélt árið 2006 fyrir breska kennara (www.teachers.tv)  greindi hann frá þekktum samhljóma niðurstöðum rannsókna sem gerðar hafa verið á creativity.  Manneskjan missir hæfileikann á að hugsa creative eftir því sem hún eldist.  Leikskólabörn beita nær undantekningarlaust frumlegum og skapandi lausnum í hversdagslegu viðfangsefnum sínum.  Þessi hæfileiki fer minnkandi með auknum aldri og nær lágmarki þegar manneskjan verður fullorðin.  Þá beitir hún nær engum skapandi lausnum við hversdagsleg viðfangsefni sín.  Fullorðnu fólki dettur ekkert nýtt í hug.  Orsökin virðist liggja í skólakerfinu.  Kerfislægir þættir skólakerfisins  virðast koma í veg fyrir að við njótum okkar sem vakandi, hugsandi og skapandi einstaklingar, sem við þó erum.  Ég fer ekki nánar út í orsakaþættina en læt nægja að benda á afleiðingu þess að refsa nemendum fyrir að hafa rangt fyrir sér.   Hvers vegna refsum við nemendum fyrir að hafa rangt fyrir sér?  Hvers vegna er það að hafa rangt fyrir sér neikvætt?  Afleiðing þessa er m.a. sú að nemandinn lærir að tjá sig ekki, tekur ekki áhættuna, og þar með hefur verið lokað á möguleikann að nemandinn að fá frumlega hugmynd sem hefur gildi.  Hvers vegna gefum við ekki meira fyrir spurninguna heldur en svarið?  Það er með góðum rökum hægt að halda því fram að skólakerfið slökkvi á ímyndunarafli nemenda sinna.  Í mínum huga er ímyndunaraflið ein verðmætasta eign hvers einstaklings.  Að taka það frá honum er glæpur.  Afleiðingin er samfélag þjóðar sem á enga frumlega hugsun og kann þá list eina að hlýða.


Vísindamaðurinn og listamaðurinn.


Yfirbragð þeirra er ólíkt, vísindamaðurinn hefur á sér yfirbragð sönnunar sem birtist í aðferðabindingu hinnar vísindalegu aðferðar sem er, þegar að er gáð, rökleg og skipulega fram sett aðferðarfræði til að halda utan um hugsunina fyrir endurtekninguna.  Þótt þessi akademíski þankagangur manneskjunnar til að halda utan um hugsun sína sé mjög mikilvægur er hann langt frá því að vera hið vitsmunalega svið manneskjunnar.  Ef ekki kæmi fleira til í vitsmunalegri tilveru manneskjunnar hefði flest í menningu hennar ekki orðið.  En til að fyrirbyggja allan misskilning þá skal það undirstrikað að akademíski vinnuaginn og hæfileikinn til að beita honum afar mikilvægur í menntun og þjónar fullkomlega vitsmunalegri þróun mannsins en þess ber þó að geta að í honum eru ekki allir vitsmunir mannsins fólgnir.

Ólíkt vinnulagi vísindamannsins hefur vinnulag listamannsins á sér yfirbragð óútreiknanlegrar tilviljunar en þegar að er gáð er það alls ekki svo.  Allir sem kynna sér vinnulag listamannsins gera sér grein fyrir því að í sköpun sinni lýtur listamaðurinn aga og strangra reglna en innan þeirra er hann frjáls , ekki ólíkt knattspyrnumanninum sem er frjáls í kappleik sínum um leið og hann lýtur regluverki  og aga íþróttarinnar, svo ég steli nú myndlíkingunni frá John Dewey.  Aðferðarfræði listamannsins er til þess fallin til að temja hug listamannsins í list sinni og listamaður sem lýtur ekki aganum verður álíka farsæll í starfi sínu eins og vísindamaður sem ekki fylgir hinni vísindalegu aðferða.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband